Siglingasamband Íslands

KAPPSIGLINGAFYRIRMÆLI

1. gr.

Kappsiglingafyrirmæli Siglingasambands Íslands (SÍL) gilda við öll siglingamót haldin af SÍL og íþrótta­félögum innan Íþrótta­sam­bands Íslands (ÍSÍ).

Kappsiglingafyrirmæli SÍL og kappsiglingafyrirmæli gefin út fyrir einstök siglingamót gilda við siglingamót á Íslandi ásamt kappsiglingareglum (Racing Rules of Sailing, RRS) Alþjóða siglingasambandsins (World Sailing), breytingum Norræna siglingasambandsins við þær og reglum ein­stakra bátaflokka sem hlut eiga að máli. Með kappsiglingafyrirmælum einstakra móta má breyta vissum ákvæðum í reglum World Sailing og fyrirmælum þessum en öðrum ekki.

Þær reglur World Sailing, sem ekki má breyta, eru tilteknar í RRS 86.
Grein 2 tekur til breytinga sem má gera á Kappsiglingafyrirmælum SÍL.

2. gr.

Tilkynningar um keppni (TUK) og kappsiglingafyrirmæli mótsins (KSF) mega ekki breyta Kappsiglinga­fyrir­mælum SÍL nema það sé sérstaklega tekið fram. Hins vegar þegar alþjóðleg kærunefnd hefur verið skip­uð fyrir mót skulu einungis fyrirmæli um reglur 67 og 88.2 gilda.

Innanfélagsmót eru undanþegin 3. og 5. grein og reglum RRS 78, 89 og 90 og viðauka G.

3. gr.

Tilkynning um keppni skal berast SÍL eigi síðar en tveimur mánuðum fyrir keppni.

Sé ekki annað tilgreint í tilkynningu um keppni skal skráningu lokið viku fyrir fyrsta keppnisdag og greiðist þá tilskilið keppnisgjald. Skrá skal alla þátttakendur í keppni og varamenn. Einnig skal tilkynna aðra um borð sem ekki eru keppendur. Tilkynna skal keppnisstjórn allar breytingar á áhafna­listum.

Allir keppendur skulu vera í siglingafélagi sem á aðild að SÍL og er það á ábyrgð félags sem keppt er fyrir að keppandi sé rétt skráður og hafi rétt til keppni*.

Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram við skráningu:

Á kænum: Nöfn, kennitölur og félög keppenda, seglanúmer, bátstegund og flokk sem keppt er í. Ennfremur félag sem keppt er fyrir og sér það um skráningu og greiðslur.

Á kjölbátum: Nafn báts, nöfn, kennitölur og félög skipstjóra og áhafnar, símanúmer skipstjóra, segla­númer, forgjöf og félag sem keppt er fyrir. Taka skal fram þann fjölda keppenda sem verður um borð*.

*Ef rangt reynist þá telst það brot á 2. reglu RRS.

4. gr.

Íslandsmeistaratitill verður ekki veittur í neinum flokki nema að minnsta kosti fimm bátar hefji keppni. Verð­launa­afhend­ing fyrir Íslandsmót skal, nema annað sé tekið fram í kappsiglingafyrirmælum mótsins, fara fram þegar að lokinni síðustu umferð.

Einungis íslenskir ríkisborgarar geta hlotið titilinn „Íslandsmeistari“.

Keppa skal í flokki A á Optimist. Ennfremur má keppa í flokki B ef a.m.k. fimm keppendur eru í hvorum flokki. Í flokki B mega þeir keppa sem ekki hafa áður keppt á Íslandsmeistaramóti Optimist.

5. gr.

Senda skal allar tilkynningar og skýrslur til SÍL fyrir mót og úrslit um leið og þau liggja fyrir.

6. gr.

SÍL gerir eftirfarandi breytingar eða útfærslur á reglum og reglugerðum World Sailing:

Regla/reglugerð Breytingar SÍL

Flot

RRS 1.2

Allar kænur, sem keppt er á, skulu hafa flot sem haldið getur uppi bát og áhöfn. Allir keppend­ur, hvort sem er á kænum eða kjölbátum, skulu klæðast flotvestum eða viður­kenndum björgunar­vestum/flot­göllum. Blaut- eða þurrbúningur telst ekki viðurkenndur flot­búnaður.

Ráslína

RRS 30.2 & 30.3

Fyrirmæli Norræna siglingasambandsins:

Þegar regla 30.2 eða 30.3 á við og keppnisstjórabátur markar ekki ráslínu, en liggur á framlengingu hennar, skal grunnlína þríhyrnings samkvæmt reglunni vera frá bátnum, eftir framlengingu og ráslínu, að rásmerki á hinum enda ráslínu.

Stytting eða breyting brautar

RRS 32, 33

Geti keppnisstjórn, í kjölbátamóti, ekki komið því við að beita ákvæðum reglna RRS um styttingu eða breytingu brautar, til dæmis vegna langra brauta, er heimilt að boða styttingu eða breytingu á braut um metra­bylgju­talstöð (VHF). Skal það gert á þeirri rás sem tilkynnt er sem sam­skipta­rás keppn­innar eða með farsíma. Þó aðeins í samræmi við skrifleg kapp­siglinga­fyrir­mæli og aðeins ef fullvíst er að upplýsingar hafi náð til allra keppenda. Keppnisstjórn þarf ekki að ná til báts sem er ekki með tal­stöð en reyna þó með síma ef gefinn hefur verið upp sími til samskipta við hann í staðinn.
Skemmdir
RRS 67

1. Öll mál um ábyrgð eða bótakröfur sem koma upp í keppni skulu til lykta leidd af dómstólum en verða ekki tekin fyrir af kærunefnd.

2. Bátur sem tekur út refsingu eða hættir keppni viðurkennir ekki með því ábyrgð eða að hann hafi brotið reglu.

Mælibréf
RRS 78

Kjölbátar, sem keppt er á, skulu geta framvísað gildu mælibréfi með IRC forgjöf, sé þess krafist.
Auglýsingar
RRS 80
Reglugerð 20

20.2.3 Réttur til að birta auglýsingu á bát

Þegar leyfi SÍL þarf til birtingar á auglýsingu á bát skv. reglu 20.2.3.3 er það veitt sjálfkrafa svo fremi sem slík auglýsing sé heimil skv. viðeigandi flokkareglu, stigakerfi eða forgjafakerfi.

TUK
RRS 89

Tilkynning um keppni skal taka mið af sniðmáti SÍL.

KSF

RRS 90.2

Viðauki J

Kappsiglingafyrirmæli einstakra móta skulu vera skrifleg samkvæmt reglu 90.2 í RRS og skulu fyrirmælin vera í samræmi við reglur í viðauka J og skal taka mið af sniðmáti SÍL.

Stig

RRS Viðauki A2

Ef móti, þar sem stig eru reiknuð, lýkur með þremur eða færri umferðum skal telja stig úr hverri umferð til úrslita. Ljúki slíku móti með fjórum eða fleiri umferðum skal hver keppandi kasta sinni lökustu keppni* (Regla A2) nema honum sé það meinað vegna annarra ákvæða í RRS. Nota skal lágstigakerfi nema annað sé tekið fram í kappsiglingafyrirmælum móts.

*Bæta má við brottkasti sé það tekið fram í kappsiglingafyrirmælum móts.

Seglanúmer

RRS Viðauki G

SÍL úthlutar seglanúmerum samkvæmt reglum í viðauka G. Seglanúmer á kænum sem SÍL úthlutar skulu vera tölustafir með ISL á undan eða ofan (til dæmis ISL 14). Seglanúmer á kjölbátum skulu vera skipaskrárnúmer með ISL á undan eða ofan (til dæmis ISL 9838). Seglanúmer einstakra flokka gilda einnig. Sækja má um önnur seglanúmer til SÍL og skráir SÍL þau og samþykkir stangist þau ekki á við önnur seglanúmer sem skráð eru hjá SÍL.

Ekki skal veita undanþágu frá kröfu um seglanúmer.

Með breytingum samþykktum á 43. Siglingaþingi 20. febrúar 2016.

Fyrirmæli þessi verða endurskoðuð í samræmi við breytingar á reglum og fyrirmælum World Sailing að lágmarki á fjögurra ára fresti.